Alveg sönn lítil saga. Ævintýra ferðalag litlu blöðrunar.

Það var að morgni 17. júní sem litla Bratz blaðran varð til í einu sjoppunni á Ísafirði.

Lítil ljóshærð stelpa kemur inn í sjoppuna um hádegisbil. Bendir upp í loftið og segir við Mömmu sína: "Ég vil þessa blöðru."  Afgreiðslustúlkan réttir Litlu stúlkunni blöðruna og allir fara ánægðir út í 17. júní hátíðarhöldin á Ísafirði.

Copy of 2007-06-17-12Eins og sést hér á myndinni, þá er blaðran góða í öruggum höndum Stóru systur.

En það var sjö dögum seinna sem þessi ákveðna blaðra, Bratz, ákvað að leggja upp í leiðangur. Hvert ferðinni væri heitið, var óákveðið.

Litla stúlkan, eigandi Bratz blöðrunnar tekur hana með sér út á svalir í góða veðrið er klukkuna vantar 15 mínútur yfir tvö að staðartíma. Þar leika þær sér saman í stutta stund uns litla stúlkan stendur upp og labbar inn. Um leið og litla stúlkan er komin inn slítur Bratz blaðran sig lausa og svífur af stað upp í loftið. Loksins var hún frjáls.

Í sömu andránni lítur móðir litlu stúlkunnar, upp í loftið og sér Bratz blöðruna svífa burt. Vitandi, að sorg litlu stúlkunnar yrði mikil ef blaðran næðist ekki aftur. Móðirin sprettur því og hleypur á eftir blöðrunni. En um seinan. Blaðran svífur ánægð burt og út á sjó.

 Þegar litla stúlkan áttar sig á því hvað gerst hafði verður sorgin mikil. Stór tár renna niður kinnar hennar uns hún grætur sig í svefn. Öðru hverju lítur móðir litlu stúlkunnar út um gluggann og sér blöðruna alltaf lengra og lengra út á sjónum uns hún hverfur sjónum hennar. Það er engu líkara en Bratz blaðran sé á leið inn í Djúp burt frá öllu og öllum.

Þegar tekur að kvölda, fer litla stúlkan og fjölskylda hennar inn í eldhús til að borða kvöldmat. Allt i einu sést til Bratz blöðrunnar, hvar hún fer hratt yfir á leið sinni í átt að landi. Litla stúlkan, Stóra systir og Mamman spretta upp frá borðinu og út í bíl. Bratz blöðrunni skyldi bjargað úr sjávarháska. Keyrt er sem leið liggur eftir strandlínunni og ekki stoppað fyrr en hugsanleg lendingarstaður Bratz blöðrunnar er fundinn. Það tekur ekki nema nokkrar mínútur fyrir Mömmuna að klifra niður snarbrattann klettavegginn og niður að sjó. Bratz blaðran er komin í öruggar hendur.  Sæl og ánægð að vera komin heim aftur. Ekki nema örfáar rispur hafa komið á fætur hennar, en hvað er það fyrir svona mikið ævintýri sem Bratz blaðran hefur upplifað í þær fimm2007-06-24-3 klukkustundir sem hún var að heiman. 

Hér má sjá ánægða Litla stelpu og Stóru systur hennar bíða eftir Bratz blöðrunni sem  stefnir hraðbyr að landi. Sjá má lítinn blett á sjónum fyrir aftan þær.

 

 

 

 

 

Endurheimt úr sjávarháska. Hér má sjá hvar Stóra systir, Litla stúlkan og Bratz blaðran labba ánægðar áleiðis heim á leið.

Nú hefur Bratz blaðran jafnað sig á ferðalaginu og svífur nú stolt og þrýstin í eldhúsi litlu fjölskyldunnar.

Héðan í frá ætlar Litla stúlkan að passa upp á Bratz blöðruna sína.

 

 

Þetta er sönn saga frá Vestfjörðum.

 Hafi einhverjar upplýsingar ekki komist til skila í þessari sögu, vinsamlega sendið inn athugasemd og öllum verður svarað fljótt og örugglega, til að óþarfa óvissa ríki ekki á meðal lesenda.

 Kveðja frá Mömmu Pretty Pig.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband