13.8.2007 | 23:50
Ný komin af faðmlaganámskeiði....
Skrapp til Bolungarvíkur í kvöld til að taka þátt í faðmlaganámskeiði.
Það eru ýmsar kenningar um faðmlög. T.d. að vísindarannsóknir styðja þá kenningu að örvun með snertingu er algjör undirstaða líkamlegrar sem og andlegrar vellíðunar. Snerting er notuð til að draga úr verkjum, þunglyndi og kvíða, til að byggja upp lífsvilja sjúklinga, við að hjálpa fyrirburum sem hafa verið sviptir snertingu í hitakössum að vaxa og þroskast.
Rannsóknir hafa líka sýnt að snerting getur gert okkur sáttari við okkur sjálf og kringumstæður okkar. Haft jákvæð áhrif á málþroska og greindarvísitölu barna.
Til eru margar tegundir snertinga og mælt er með faðmlögum sem sérstakri og mjög árangursríkri aðferð til að auka vellíðan og heilbrigði.
Við verðum náttúrulega að hafa ástæður fyrir faðmlögunum. T.d. eru faðmlög góður megrunarkúr. Faðmlög minnka matarlyst, við borðum minna þegar við erum andlega nærð af faðmlögum enda eru hendur okkar uppteknar að halda utan um aðrar knúsverur.
Faðmlög slaka á spennu, hægja á öldrun og auka sjálfstraust, gera góðan dag betri og svona mætti lengi telja.
Hæfniskröfur eru gerða til þeirra sem vilja verða faðmlagafræðingar sem og skjólstæðinga þeirra, það er bara að vera. Faðmlagafræðingur dæmir aldrei né ásakar.
Faðmlög eru fyrir alla.
Siðfræði og hegðunarreglur faðmlagafræðinga eru fjórar:
1) Þar sem faðmlag af þessu tagi er aldrei kynferðislegt, faðmaðu samkvæmt því.
2) Fullvissaðu þig um það að þú hafir leyfi áður en þú faðmar.
3) Þér ber einnig að biðja um leyfi alltaf þegar þú þarft á faðmlagi að halda.
4) Þú ert ábyrgur fyrir að tjá þarfir þínar og hvernig þú vilt fá þeim fullnægt.
Hér eru nokkur dæmi um faðmlög: Bangsafaðmlag, Þríhyrningsfaðmlag, Kinn við kinn, Samlokufaðmlagið, Hrifsa-þrýsta-hlaupafaðmlagið, Hópfaðmlag, Hlið við hlið faðmlagið, Aftur og fram faðmlagið, Hjartastöðvarfaðmlagið og að lokum Klæðskerafaðmlagið.
Hvernig við föðmumst fer eftir umhverfinu sem við erum í, hvenær tíma dags þörf til faðmlags kemur yfir mann. Hægt er að gefa frá sér hljóð eftir faðmlag eins og vááá eða æði eða þetta er yndislegt eða einfaldlega að njóta faðmlagsins með augnabliks þögn.
Svo eru öll þessu flóknu tæknilegu smáatriði sem hafa þarf í huga eins og að nota þín innri augu eða Zen faðmlög og þessi aukasnerting.
En þegar allt kemur til alls þá er málið að faðma oft og faðma innilega.
Með kveðju frá Huggy Pretty Pig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.